139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, það er ekki við hæfi eins og málum er háttað í dag. Það virðist hins vegar vera ákveðinn og einbeittur vilji meiri hlutans að ná því í gegn að mega ráða til sín fleiri aðstoðarmenn sem kosta um 100 milljónir í viðbót samkvæmt því mati sem fjármálaráðuneytið gerir. Hins vegar hafa verið uppi vangaveltur um hvort sú tala sé hærri en þarna er nefnd.

Við höfum stundum verið að setja hlutina í samhengi. Ef ég man rétt væri hægt að tryggja Kvikmyndaskólann og rekstur hans fyrir 60–70 milljónir, en hér er verið að tala um 100 milljónir. Hvað ætli sé hægt að minnka og lækka þann niðurskurð sem er áætlaður t.d. hjá Heilbrigðisstofnuninni á Húsavík ef þessar 100 milljónir færu nú þangað en ekki inn í framkvæmdarvaldið? Það er allt í lagi að setja hlutina í þetta samhengi til að sjá hvers konar firra er í gangi með þessu frumvarpi.