139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var sérstaklega skemmtilegt dæmi. Það er nefnilega þannig að stjórnin er kosin af hluthafafundi. Henni verður ekki breytt nema með nýjum félagsfundi. Hér er verið að segja að einn aðili — það er eins og ef hluthafafundur mundi ráða einn mann og hann verði stjórnarformaður og hann mundi bara ráða restina af stjórninni, mundi síðan reka fyrirtækið eins og honum dytti í hug án nokkurra reglna eða nokkurra fyrirmæla frá hluthafafundi. Þetta er nefnilega akkúrat það sem hluthafafundur gerir. Hann ræður heila stjórn og hann setur henni meira að segja ákveðnar reglur, t.d. um útborgun launa og annað slíkt. Þetta er mjög góð samlíking. Þetta er einmitt það sem ætti að gera, að hluthafafundurinn, Alþingi, ætti að hafa meiri völd.

Hins vegar er ég alveg sammála því sem er frumvarpinu, þ.e. meiningin er að auka sveigjanleikann, en ég vil líka koma á „teamwork“ hjá ríkisstjórninni þannig að hún sé með eina stefnu en ekki þrjár eða fjórar.