139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Já, það er einmitt það sem gerist að þegar fyrirtæki ætlar t.d. að stofna ný hlutafélög eða gera eitthvað annað, meiri háttar hluti, þá fer það fyrir hluthafafund. Þannig vinna menn yfirleitt. Stjórn í fyrirtæki mundi aldrei voga sér að gera eitthvað sem hluthafafundurinn væri ekki sáttur við (Gripið fram í: Akkúrat.) vegna þess að hluthafafundurinn er hinn endanlegi aðili sem ræður. (Gripið fram í: Nákvæmlega.) Það er einmitt þess vegna sem við viljum að Alþingi komi að þessum stóru línum, hversu margir ráðherrar eru, hversu margir eru í stjórn t.d. (Gripið fram í: Það er búið að bjóða það.) Það er búið að bjóða það, já, en það er enn þá of fátæklegt. Það má vel vera að menn finni á þessu lausn, ég er ekki að segja það.

Ég segi enn og aftur: Það er margt gott í frumvarpinu. Ákveðinn sveigjanleiki er tekinn upp. Margt er gott, en menn mega ekki búa til svona einræði, frú forseti. Við getum ekki ráðið einn mann á hluthafafundi og hann bara geri það sem honum dettur í hug, hefur tíu, fimm eða þrjá stjórnarmenn og stofnar fyrirtæki (Forseti hringir.) á hinn veginn.