139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil segja við hv. þm. Magnús Orra Schram að ég mun svara þeim spurningum sem hann mun sjálfsagt spyrja mig um í andsvari, og öllum öðrum spurningum er lúta að Framsóknarflokknum, með glöðu geði á eftir.

Ég vil þó segja eitt, frú forseti, að efnisinnihald frumvarpsins verður sífellt sérkennilegra þegar maður fer að lesa það saman við eldri lögin. Maður sér að verið er að breyta orðalagi, og setja nýja merkingu í greinarnar. Ég vil meina að það sé kannski svolítið verið að reyna að svindla ákveðnum hlutum fram hjá okkur. Í þeim lögum sem í gildi eru í dag stendur í 14. gr., með leyfi forseta:

„Nú flytjast stjórnarmálefni milli ráðuneyta.“

Í þeim er nefnilega gert ráð fyrir því að annað fyrirkomulag sé á því en í þessu frumvarpi, þar stendur bara:

„Nú eru stjórnarmálefni flutt milli ráðuneyta.“

Þetta þýðir að það er væntanlega búið að gera ráð fyrir því að einn einstaklingur hafi meira um þetta að segja eða geti jafnvel flutt málin þarna á milli.

Ég vil ítreka það sem ég kom inn á í andsvari áðan, að mér finnst skjóta skökku við að sækjast eftir auknum fjárútlátum til framkvæmdarvaldsins, um 100 millj. kr., þegar alls staðar vantar fjármuni, alls staðar vantar peninga. Hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði frá reynslu sinni í endurskoðunarnefnd almannatrygginga þar sem ekki er hægt að auka fjárútlát vegna þess að fjármuni vantar. Svo er kveðið á um það í þessu frumvarpi að framkvæmdarvaldið geti tekið til sín 100 milljónir extra til að fjármagna aðstoðarmenn. Þá er ég ekki að gagnrýna að hugsanlega þurfi að fjölga aðstoðarmönnum í ráðuneytum. Það er svolítið kitlandi hugmynd sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir nefndi hér að aðstoðarmenn og ákveðnir aðilar í Stjórnarráðinu fari bara með ráðherrum inn og út aftur. Mér finnst við þurfa að velta því fyrir okkur hvort það sé heppilegt fyrirkomulag á Íslandi. Ekki slá það út af borðinu, alls ekki.

Ég geld mikinn varhuga við þeirri miklu áherslu og offorsi við að ná þessu í gegnum þingið, og það setur okkur að sjálfsögðu í ákveðnar stellingar, þegar það hefur nákvæmlega enga þýðingu í raun fyrir þau verkefni sem við erum að fást við í dag á Alþingi eða hjá framkvæmdarvaldinu. Þetta snertir ekki heimilin, stöðu þeirra, eða fyrirtækin á nokkurn einasta hátt, kemur því ekki neitt við. Það er verið að auka völd forsætisráðherra. Verið er að draga úr formfestu þegar þarf að auka hana, og auka sveigjanleika. Það getur vel verið að nauðsynlegt sé að auka sveigjanleikann, en er þá ekki rétt að gera það öðruvísi en með því að færa einum ráðherra, sama hver það er á hverjum tíma, allt þetta vald?

Ég ætla að fara yfir í annað, frú forseti, þannig að ég brenni ekki inni á tíma með það. Menn hafa rætt hér töluvert um Framsóknarflokkinn og stefnu hans. Það er alveg rétt að árin 2005–2007 fór vinnuhópur sem skipaður hafði verið, yfir hvað Framsóknarflokkurinn vildi leggja til varðandi breytingar á Stjórnarráðinu. Sá hópur skilaði af sér fyrir árið 2007, að mig minnir. Hluti af þeim tillögum, einungis hluti, áttum okkur á því, rataði svo inn í stefnuskrá á flokksþingi 2009. Það er hins vegar þannig, frú forseti, að árið 2011 er aftur flokksþing í Framsóknarflokknum. Þá er samþykkt ný stefna. Ég bið hv. þingmenn að hlusta á þetta: Árið 2011 er samþykkt ný stefna. Í allri þeirri stefnuskrá er hvergi minnst einu orði á Stjórnarráðið, ekki einu orði. Því miður er sá misskilningur uppi, bæði meðal ákveðinna þingmanna Framsóknarflokksins og stjórnarliða, að sú stefna gildi enn.

Ég ætla að lesa hérna, frú forseti, upp úr dagblaði. Það er verið að vitna í flokksþing Framsóknarflokksins:

„Flokksþingið skorar á ríkisstjórn og Alþingi að styðja með hagkvæmum lánum og á annan hátt aukningu og endurbyggingu ullariðnaðarins í landinu og telur jafnframt sjálfsagt að Samband íslenskra samvinnufélaga hafi áfram forustu í framkvæmdum þessa iðnaðar.“

Þetta hefur aldrei verið afnumið úr samþykktum Framsóknarflokksins. Dettur einhverjum í hug að þetta gildi enn? Dettur einhverjum í hug að samþykkt frá 1946 sé í gildi af því hún var ekki afnumin sérstaklega?

Svo stendur hér. Þetta er nefnilega svolítið áhugavert í ljósi aðstæðna í dag:

„Að hafa öflugt eftirlit með gjaldeyrisversluninni og reisa skorður gegn fjárflótta.“

Í dag eru gjaldeyrishöft. Dettur einhverjum í hug að Framsóknarflokkurinn sé með sömu stefnu þegar kemur að gjaldeyrishöftum? Hafa menn heyrt það hér? Hafa menn heyrt það í þingræðum? Ég bið nú bara hv. þingmenn að vera ekki að núa fólki upp úr hlutum sem eru klárlega misskilningur.

Hér hefur líka verið spurt um hvernig þingflokksfundir Framsóknarflokksins fari fram. Þeir fara fram þannig að málin eru rædd. Það breytir því þó ekki, frú forseti, að þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, hafa stjórnarskrárbundinn rétt til að flytja þingmál. Þessi tillaga var ekki rædd í þingflokki framsóknarmanna, því miður, hún var bara flutt hér og það er réttur þeirra sem flytja tillöguna. Við höfum ýmsar skoðanir á henni. Það er nú ekki eins og að sama skoðun hafi verið hér hjá öllum flokkum á Alþingi síðan við komum á þing. Það er bara þannig.

Og að halda því fram að stuðningur við ullariðnaðinn frá 1946 eigi sér enn stoð í stefnuskrá Framsóknarflokksins af því hann var ekki sérstaklega afnuminn, er algjörlega snargalið. Ég segi það nú bara.

En hins vegar samþykkti Framsóknarflokkurinn nýja stefnuskrá á síðasta flokksþingi sem mikið hefur verið fjallað um og mikið tekið eftir. Þar varð mikil grundvallarbreyting í einu stærsta málinu. Ég hugsa að það sé hvað mest að pirra þá samfylkingarþingmenn sem hér draga upp ranga mynd af því sem er að gerast hjá framsóknarmönnum, að við breyttum um stefnu í Evrópusambandsmálum. Við breyttum um stefnu. Framsóknarflokkurinn ályktaði að Íslandi væri best borgið utan Evrópusambandsins. Algjör viðsnúningur varð í þeirri stefnu hjá Framsóknarflokknum. Það er kannski að pirra hv. þingmenn Samfylkingarinnar þegar þeir ræða þessi mál. En ég skal með glöðu geði svara fleiri spurningum sem spretta af þessari miklu umhyggju fyrir Framsóknarflokkinn.

Ég er svo sem ekkert hissa á því að stjórnarliðar reyni að höggva í Framsóknarflokkinn sem hefur vaxið með hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri sem við höfum séð. Það er svo komið að Framsóknarflokkurinn er aftur orðinn stærri heldur en Vinstri græn eða gamla Alþýðubandalagið og mun sjálfsagt verða það áfram. Samfylkingin á vitanlega í mikilli vök að verjast eins og við sjáum líka. Það er eðlilegt að menn taki út reiði sína og bræði á öðrum hér í ræðustól.

Varðandi þetta frumvarp er alveg ljóst að miklu meira þarf að fjalla um það en gert hefur verið. Alltaf eru að koma upp nýjar hliðar og ný atriði í því. Ég vil á þessum síðustu mínútum, frú forseti, koma inn á 18. gr. Ég hef aðeins minnst á hana áður og ég held að það sé mikilvægt að fá skýringar á henni. Ég óska eftir því að hv. þingmenn stjórnarliðsins sem eru í salnum og flytja hér ræður eða koma í andsvör hjálpi nú til og svari einhverjum af þeim spurningum sem beint er til þeirra. Hvað þýðir 18. gr. nákvæmlega? Hvernig á að setja aðstoðarmanni ráðherra embættisbréf þegar starf aðstoðarmanns ráðherra felst í nánast öllu því sem ráðherrann segir honum að gera? Það er nánast þannig, ég segi ekki að aðstoðarmaður mundi gera hvað sem er, en svo opið er starfið, nótt sem dag. Þess vegna þarf að skýra þetta og það hefur ekki verið gert. Fleiri þáttum þurfum við að kalla eftir.

Ég vil þó taka fram, frú forseti, vegna þeirrar tillögu sem hefur líka verið til umræðu hér, að það er ágætisviðleitni að leggja hana fram. Að mati þess sem hér stendur og margra fleiri, og það hefur komið fram, gengur hún hins vegar ekki nærri nógu langt til að þessu máli megi ljúka. Viðleitnin er ágæt en ekki er gengið nærri því nógu langt. Til að ljúka málinu og nú tala ég eingöngu fyrir sjálfan mig, ekki fyrir hönd Framsóknarflokksins, tel ég að það þurfi að halda sömu meiningu og er í lögunum í dag í 2., 3., 4. og 5. gr., sérstaklega 2., 4. og 5. gr., þessa frumvarps. Þá er möguleiki á því að nálgast eða ná niðurstöðu um málið.

Ég get hins vegar ekki farið héðan, frú forseti, eftir þessa 10 mínútna ræðu, án þess að nefna að vitanlega er stórundarlegt að þetta skuli vera áherslumál ríkisstjórnarinnar. Hér er atvinnulífið lamað. Heimilin eru að kikna undan byrðunum. Það þarf að setja lög um gjaldeyrishöft. En þá er áherslumálið að forsætisráðherra fái meiri völd. Það er stóra málið til að ljúka þessu 139. þingi. Það finnst mér sérkennileg forgangsröðun.