139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:33]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson sýndi okkur glögglega með dæmum hversu úr sér gengin og gölluð stefna Framsóknarflokksins er í fjölmörgum málum. Ég þakka honum fyrir dæmin. Það kom mér svo sem ekki mikið á óvart hvað snertir mörg mál en það breytir því hins vegar ekki, eins og sýnt var fram á í þingræðu í dag, að afstaða þingflokks Framsóknarflokksins í þessu tiltekna máli gengur þvert gegn því sem grasrót flokksins hefur nýverið samþykkt þar sem segir að ríkisstjórn eigi sjálf að skipta með sér verkum en ekki löggjafinn, að unnt eigi að vera að breyta samsetningu, fjölda og heitum ráðuneyta og það sé ekki bundið í lögum.

Það er sárt til þess að hugsa að Framsóknarflokkurinn, jafnágætur og sá flokkur er að mörgu leyti, geti ekki tekið undir með tveimur þingmönnum í sínum hópi sem eru tilbúnir að fallast á þá málamiðlunartillögu sem hér liggur frammi og að þessu máli verði lokið í sátt og samlyndi (Forseti hringir.) allra flokka, enda er hér um að ræða mikilvægt framfaramál.