139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð bara að biðja hv. þingmann að hlusta núna á það sem ég segi. Grasrót Framsóknarflokksins samþykkti í apríl 2011 nýja stefnuskrá, nýja stefnu flokksins sem gildir til næstu tveggja ára. Þar með er búið að breyta þeirri stefnu sem var í gildi árið 2009. Hv. þingmaður, ég ætla að biðja þig að hlusta á það sem ég er að segja. Í þeirri stefnu sem grasrótin samþykkti nú er hvergi minnst á þetta.

Við getum alveg talað um annað mál. Hv. þingmaður kannski veit ekki af því en á sama ári, 2007, lét Framsóknarflokkurinn gera skýrslu um gjaldeyrismál. Er það þá virkilega þannig að hún gildi enn þrátt fyrir að flokkurinn hafi til dæmis búið til nýja stefnu í Evrópumálum? Gildir þá sú stefna sem þar var viðruð? Ég velti því fyrir mér. Það getur ekki verið frekar en að ullariðnaðurinn sé enn í gildi hjá okkur.