139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:43]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann kom inn á breytingartillögu meiri hlutans, þá breytingu á frumvarpinu að það sé hægt að fjölga aðstoðarmönnunum strax við gildistöku laganna, en gert var ráð fyrir að það mundi kosta á annað hundrað milljónir að fjölga þeim að afloknum næstu alþingiskosningum. Því langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi fengið svör við eða áttað sig á því hvað þetta þýði mikla aukningu. Ég átta mig ekki alveg á hvað þeir eru margir í dag, það er búið að setja aðstoðarmenn og pólitískt ráðna aðila sem einhverja skrifstofustjóra og sérfræðinga inn í ráðuneytin, en ég hef hlerað að 10–11 manns mundu bætast við strax við gildistöku laganna. Það þýddi þá 70–80 milljónir.

Finnst hv. þingmanni ekki skjóta skökku við að auka pólitískt vald framkvæmdarvaldsins á sama tíma og gengið var hart gegn heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki (Forseti hringir.) á þessu ári í fjárlögum, að skera þá niður þar og reka konurnar út af spítalanum en ráða pólitíska ráðgjafa inn í ráðuneytin?