139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[21:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur er þetta rétt sem hv. þingmaður segir, í þessu samhengi er mjög sérstakt að það sé verið að setja meiri fjármuni þarna. Það er líka mjög sérstakt að þetta mál skuli vera forgangsmálið í þinginu í septembermánuði, þessum stubbi sem við köllum svo, þegar það er ljóst að önnur mál bíða. Maður saknar þess að þær tillögur sem við höfum lagt fram til að bæta hag heimila og fyrirtækja komast ekki á dagskrá. Það er ekki verið að ræða þær þó að þær liggi enn þá í númeraðri röð á Alþingi og sé hægt að taka fyrir. Ef það væri einhver vilji til þess væri það gert.

Ég hygg að sú upphæð sem hér um ræðir sem framkvæmdarvaldið, forsætisráðherra, vill fá til að fjölga aðstoðarmönnum sé mjög nálægt því að vera sú sama og á að skera í næstu fjárlögum hjá heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki. Miðað við þær tölur sem maður heyrir gæti þetta verið nánast sama talan. Þá hljóta landsbyggðarmenn að spyrja sig alls staðar úti á landi þar sem verið er að skera niður: Er réttlætanlegt (Forseti hringir.) að færa forsætisráðherra aukin völd og 100 milljónir sem einhvers staðar eru teknar? Nei.