139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:06]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gagnrýndi mjög harðlega það fyrirkomulag sem verið er að boða í frumvarpinu þar sem kveðið er á um að ráða 23 aðstoðarmenn, þrír þeirra verða eins konar flakkarar sem eiga að geta farið á milli. Nú ætla ég að bregða af vana mínum og verja hæstv. forsætisráðherra. Ég held að það verði að setja þetta mál í ákveðið samhengi. Hæstv. forsætisráðherra skrifaði tímamótagrein í eitt dagblaðanna á dögunum og sagði frá því að fram undan væri að hér yrðu til 14.000 störf. Við sjáum að hæstv. ráðherra er byrjuð þó að í litlu sé og það eru 23 störf þannig að nú standa bara eftir 13.977. Við skulum síðan fylgjast með hvernig þetta verður talið niður.

Í þessari umræðu hefur mikið verið spurt um það hvort verið sé að veikja Alþingi eða styrkja það með frumvarpi til nýrra stjórnarráðslaga. Ég hef einfaldlega sagt hérna að við séum örugglega álíka læs, hv. þingmenn, þó að sagt hafi verið við okkur hér í dag að við séum misjafnlega greind. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann sem situr í allsherjarnefnd: Var reynt að leggja mat á það í starfi allsherjarnefndar hvort þetta mundi leiða til þess að þingið yrði veikara eða sterkara?

Eins og ég les út úr 2. gr. er alveg augljóst mál að það sem fram að þessu hefur verið ákvörðunarvald Alþingis verður núna ákvörðunarvald framkvæmdarvaldsins, einkanlega hæstv. forsætisráðherra. Eins og ég hef getað skilið þetta er augljóst að með því að taka verkefni og völd frá Alþingi og færa til framkvæmdarvaldsins veikir það Alþingi og styrkir framkvæmdarvaldið. Er þetta ekki svo að mati hv. þingmanns?

Að lokum vil ég spyrja: Hefur hv. þingmaður einhverja skýringu á því hvað liggi svona á? Ég sé að það eru engar dagsetningar í þessu frumvarpi, það er ekkert slíkt sem kallar á. Hvað gerir það að verkum að hæstv. ríkisstjórn og sérstaklega hæstv. forsætisráðherra rekur svona (Forseti hringir.) hratt trippin og vill endilega ljúka málinu á þessum dögum?