139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:08]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Einstaklega skemmtileg tala 13.977 störf sem á eftir að skapa, einstaklega gaman að koma því hér að, en hún lækkar líklega strax um tvö því að mér skilst að það hafi skapast tvö störf á Suðurnesjum þegar ríkisstjórnin fór þangað og hélt þar opinn fund. Víst var það eins fyrir vestan, hv. þingmaður veit kannski betur um það. Ég held að það hafi verið lofað þremur störfum þar. Þannig að það saxast á 14.000 störfin.

Það er alveg ljóst, og sama hvað hæstv. forsætisráðherra segir, að í fyrsta lagi er verið að forsætisráðherravæða Stjórnarráðið með þessu frumvarpi og að sjálfsögðu er verið að kippa lagastoðinni sem að þessu snýr undan Alþingi. Það sér hvert mannsbarn. Það sjá allir sem eru læsir að þetta er með þeim hætti og það er ekkert um það að tala meir, sama hvað hæstv. forsætisráðherra lemur hér í borðið og telur að svo sé ekki.

Það er nú þannig, þrátt fyrir langa þingreynslu ráðherrans sem er búin að starfa hér í rúm 30 ár, að nýtt fólk er komið inn í þingið og það þýðir ekki að beita þeim gömlu vinnubrögðum sem voru hér við lýði fyrir 25 árum, að láta eins og þingmenn viti ekki neitt og geti ekki náð sér í upplýsingar úti í þjóðfélaginu. Það sem þessir öldnu hæstv. ráðherrar eiga svo erfitt með að átta sig á er að það er ekki lengur hægt að mata hvorki þingmenn né þjóðina á röngum upplýsingum. Það sjá allir í gegnum það.

Hvað liggur á með þetta mál? Ég hef einungis eina skýringu og hún er sú að það liggur inni umsókn að Evrópusambandinu. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er mikill ljár í þúfu þessarar ríkisstjórnar og það er einfaldlega verið að setja það í lög að leggja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra niður með þeim hætti að ráðuneyti hans verður sameinað iðnaðarráðuneytinu og búið til nýtt atvinnuvegaráðuneyti. Ég hef eiginlega orðið enn þá sannfærðari um það síðustu daga að það sé ástæðan vegna þeirrar hörku (Forseti hringir.) sem ríkisstjórnin keyrir þetta mál áfram á, því að það er engin ástæða til að keyra það áfram með þessum hætti.