139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:11]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við skulum bara kalla þetta réttum nöfnum. Eftir að Samfylkingin komst í ríkisstjórn hefur hún lagt ofurkapp á að kratavæða lagasafn Alþingis og þá á ég við að færa vald frá Alþingi undir framkvæmdarvaldið. Og eins og ég hef minnst á er þessi reglugerðarvæðing, að færa lagasetningarvald frá Alþingi inn í reglugerðir sem settar eru í ráðuneytum af embættismönnum, endurspeglun af lagaþróun og lagasetningu í Evrópusambandinu. Samfylkingin er því fljót að læra af herrum sínum úti í Brussel.

Varðandi sveigjanleikann sem þingmaðurinn kom inn á og boðaður er í frumvarpinu, þá gengur sveigjanleikinn út á það að forsætisráðherra hverju sinni getur tekið verkefni frá einum ráðherra og ráðuneyti og jafnvel ráðherra og fært á annan stað í stjórnsýslunni. Tökum sem dæmi: Væri slíkt ástand uppi núna væri hægt að taka sjávarútvegs- og landbúnaðarmálin undan þeim ráðherra (Forseti hringir.) og færa hæstv. utanríkisráðherra það vald. Það er það sem verið er að fara með þessu frumvarpi.