139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[22:15]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal kærlega fyrir þessa fyrirspurn. Vissulega er það svo að á meðan Alþingishúsið er opið og hér fara fram umræður á hér að vera þéttskipaður salur. Ég tala nú ekki um þegar málefnin snerta Stjórnarráðið og við sitjum hér um hánótt með tóma bekki. Ég ber virðingu fyrir hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hann skuli þó alla vega vera í húsinu, hann sýnir þá málinu einhvern áhuga, en það sama er ekki hægt að segja um hina ráðherrana. Auðvitað eiga allir þessir aðilar að koma hér og taka þátt í umræðum með okkur þingmönnum um svo mikilvæg mál, að sjálfsögðu. Ég hvet þingmanninn til að fara hér upp undir liðnum fundarstjórn forseta á eftir og kalla eftir ráðherrunum og þótt ekki væri nema kannski forustumönnum stjórnarflokkanna.

Það var einstaklega gaman að hv. þingmaður minntist á lagaskrifstofu Alþingis, því að eins og allir vita er það mitt hjartans mál að stofnuð verði lagaskrifstofa Alþingis með einhverju sniði, að hér verði öflug aðstoð við þingmenn sem hafa það hlutverk að semja og leggja fram frumvörp, sem fari í gegnum frumvörpin, sem leggi á það mat hvort frumvörpin standist lög og stjórnarskrá og sé eins öflugt batterí og þjóðþing annarra Norðurlanda hafa. Það vantar inn í ferilinn hjá okkur. Það er lífsnauðsynlegt ef við ætlum að koma málum af stað á nýjan leik í þjóðfélaginu að stofnuð verði lagaskrifstofa Alþingis og Alþingi verði styrkt bæði fjárhagslega og faglega. Því að á meðan þessi mál eru með þeim hætti að þingmenn þurfa sjálfir að ræða hér lagatæknilega hliðar á hverju einasta frumvarpi sem kemur úr Stjórnarráðinu og frá þingmönnum líka er tíma Alþingis illa varið. Við eigum fyrst og fremst að tala um efnislega hluta frumvarpanna, (Forseti hringir.) ekki þessar lagatæknilegu flækjur eins og t.d. það að þetta frumvarp stenst ekki stjórnarskrá að mínu mati.