139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:03]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni kærlega fyrir ræðu hans og býð hann velkominn til starfa eftir árs hlé. Það var athyglisvert sem þingmaðurinn minntist á í upphafi máls síns að eftir árs leyfi væru enn sömu málefnin á dagskrá, hér væri enn verið að kljást um Helguvík og fleiri mál sem hann fór yfir, sem sýnir fullkomna stöðnun hjá ríkisstjórninni. Hér hefur ekkert gerst síðasta ár og því miður, frú forseti, ekkert gerst síðan ríkisstjórnin tók við. Það endurspeglast svona í upplifun þingmannsins að það var eins og hann hefði farið heim og lagt sig eina nótt og þegar hann kemur aftur eru sömu málin á dagskrá. (Gripið fram í: Og enn er lofað 6 þús. störfum.) Og enn er lofað 14 þús. störfum, hv. þm. Pétur Blöndal.

Hv. þingmaður fór vel yfir það í ræðu sinni hvernig fyrirkomulagið væri á Norðurlöndum í samanburði við hér, og hefur kynnt sér það mjög vel. Ég hef gjarnan gert slíkan samanburð. Mig langar til að spyrja þingmanninn hvort honum þyki það ekki mikið hálmstrá hjá ríkisstjórnarflokkunum að bera það eitt saman hvernig ráðherraskipan er á hinum Norðurlöndunum, vegna þess, eins og þingmaðurinn fór yfir í andsvari sínu áðan, að þar er hefð fyrir minnihlutastjórnum en ekki hér. Á Norðurlöndunum er líka mikil hefð fyrir því að reka öflugar lagaskrifstofur sem sortera út svona ruslfrumvörp eins og þetta frumvarp hér hjá okkur á Alþingi og þar eru svona frumvörp hreinlega sett í pappírstætarann því að þar eru öflugir prófessorar í lögum sem hleypa svona málum ekki inn í þingið. Þess vegna er svo sorglegt að við íslenskir þingmenn skulum sífellt vera að þræta um lagatæknileg atriði.

Í frumvarpinu er kynntur til sögunnar mikill sveigjanleiki sem hæstv. forsætisráðherra getur nýtt. Ég vil spyrja þingmanninn: Býður þetta ekki upp á mikla hættu á því að þegar ráðherra lendir kannski í andstöðu við meiri hluta ríkisstjórnar, þá geti hæstv. forsætisráðherra hæglega gripið inn í, tekið málaflokkinn frá ráðherranum og sett málaflokkinn til ráðherra sem er (Forseti hringir.) forsætisráðherra að skapi?