139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:05]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar upplifun mína á því að vera aftur kominn til þings eftir nærri því eitt og hálft ár þá verður mér svolítið hugsað til ágætrar kvikmyndar sem ég sá í gamla daga og heitir Ground Hog Day. Sú mynd fjallar um mann sem vaknar á hverjum morgni og upplifir sama daginn aftur og aftur. Ég vona að upplifun mín verði nú ekki þannig, það væri slæmt, enda má ætla að hér séu fjölbreyttari verkefni en hjá þeim vesalings manni. Ef ég man rétt var hann veðurfréttamaður.

Hvað varðar fullyrðingar hv. þingmanns um stöðu efnahagsmála og annarra framfaramála er ég hjartanlega sammála þingmanninum að við sitjum því miður föst og það er engin ástæða til að sitja föst. Tækifærin eru næg, það eru nægir möguleikar til að koma hlutunum af stað en því miður hefur það ekki tekist. Hluti af því er kannski stjórnmálamenning okkar og hvernig við störfum. Þar geta allir litið í sinn barm. En ábyrgðin hlýtur auðvitað að liggja hjá þeirri ríkisstjórn sem er í landinu, þar er frumkvæðisskyldan og þar má margt betur fara.

Hvað varðar spurningarnar um stjórnskipun á Norðurlöndum þá vil ég nú ekki gefa mig út fyrir að vera einhver sérstakur sérfræðingur í þeim málum þó ég hafi reynt að leggja mig eftir þessu, en já, ég mundi hafa áhyggjur af þeirri stöðu sem gæti myndast þegar forsætisráðherra þyrfti að ýta til óþægilegum ráðherra, ef niðurstaðan yrði ekki sú að ýta bara ráðherranum út, sem ég held að væri eðlilegast. Ef niðurstaðan yrði frekar sú að menn færðu verkefni til vegna andstöðu einstakra ráðherra, væri auðvitað mjög alvarlegur vandi á ferðinni. Þá byrjar hringekja þar sem menn halda ráðherranum inni þrátt fyrir andstöðu hans. Það er reyndar svolítið svipað og ég hef reyndar séð hjá þessu stjórnlagaráði, það leggur til að menn geti sagt sig frá ábyrgð og ákvörðunum með bókunum sem mér finnst skrýtin hugmynd. Það er auðvitað miklu hreinlegra að vísa bara þeim ráðherra úr ríkisstjórninni sem setur sig upp gegn stjórnarstefnunni heldur en að fara að hreyfa til verkefni innan Stjórnarráðsins, það gefur augaleið.