139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:11]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir um margt ágæta ræðu. Þingmaðurinn fór vel yfir helstu atriðin í þessu frumvarpi og hvað það er sem þarf að breyta í því þannig að það sé óhætt að það verði að lögum.

Það kom fram hjá hv. þingmanni og er að verða nokkuð viðurkennt að í þessu felist mikið valdaafsal frá löggjafarvaldinu til framkvæmdarvaldsins og hæstv. forsætisráðherra. Hv. þingmaður nefnir að með þessu geti hæstv. forsætisráðherra flutt heilu málaflokkana milli ráðherra án þess að löggjafarvaldið sem hefur haft um þetta að segja hingað til geti nokkuð um málið sagt.

Þetta er að verða viðurkennt, stjórnarliðar hafa viðurkennt það hér í umræðunni og eru að reyna að koma með tillögur til þess að bæta það, draga úr því og breiða yfir þetta með einhverjum hætti og í því ljósi langar mig að velta upp við hv. þingmann þessari spurningu: Hvað drífur hæstv. ríkisstjórn áfram í þessum breytingum? Hvaða hugmyndafræði og hvaða hugsun býr að baki því að menn leggi svona gríðarlega áherslu á það núna, árið 2011, að færa völd frá Alþingi til framkvæmdarvalds, einkum og sér í lagi hæstv. forsætisráðherra? Það væri fróðlegt að fá sýn hv. þingmanns á þetta og hvað hann telji að búi þarna að baki.