139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:16]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að það er ástæða til að hafa áhyggjur af þessum þætti málsins. Ég vil ekkert fullyrða um það en þetta er það sem blasir við. Ég get tekið undir þau orð hv. þingmanns.

Ég held að vandinn sé raunverulega víðtækari. Þegar jafnveik stjórn er við völd og núna sem reiðir sig á meiri hluta eins þingmanns er einmitt hætta á því að þær málamiðlanir sem þarf að gera í ríkisstjórninni til að halda henni saman kosti mjög mikið, geri það að verkum að ríkisstjórnin verði vart starfhæf og þurfi síðan að teygja sig mjög langt og jafnvel jafnlangt og við sjáum í þessu frumvarpi. Það má færa fyrir því sterk rök að það sé verið að gera þessar breytingar til að auðvelda síðan breytingar innan ríkisstjórnarinnar til að leysa vandamál dagsins í dag. Það er mjög alvarleg staða bæði fyrir þingið og þjóðina. Þess vegna skiptir máli, frú forseti, og ég get ímyndað mér að frú forseti taki undir með mér í því að það þurfi að skipta um ríkisstjórn sem fyrst.