139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Á löngum ferli mínum á hv. Alþingi, sumir segja of löngum, hef ég kynnst mörgum ræðumönnum og þar á meðal hæstv. ráðherrum Ögmundi Jónassyni, Steingrími J. Sigfússyni og Jóhönnu Sigurðardóttur. Þeir kenndu mér að þegar menn ræða einhver málefni á Alþingi eigi að krefjast þess að ráðherrar séu viðstaddir. Nú veit ég að það mál sem við ræðum hér er í höndum þingsins en það fjallar um ráðuneytin, um ráðherrana. Það er mjög undarlegt að ráðherrarnir séu ekki viðstaddir, alveg sérstaklega vegna þess að tveir þeirra, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jón Bjarnason og hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson, hafa lýst efasemdum um þetta. Það er ekki einu sinni víst að þeir styðji það þótt þeir séu í ríkisstjórn og við séum að ræða stjórnarfrumvarp.

Þess vegna óska ég eftir því, frú forseti, að því verði beint til þessara hæstv. ráðherra að þeir mæti hérna og ræði með okkur þetta frumvarp og taki þátt í umræðunni, helst sem fyrst. Ég legg til að þeir fái strax orðið þegar þar að kemur.