139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:22]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Nú erum við búin að ræða þetta mál talsvert lengi og um það eru mjög skiptar skoðanir. Það liggur fyrir að málið er engan veginn klárt til afgreiðslu eins og það er og það væri beinlínis hættulegt ef málið yrði samþykkt í núverandi mynd. Því langar mig að beina því til hæstv. forseta að skoðaður verði sá möguleiki að hliðra til dagskrá fundarins, taka önnur og brýnni mál á dagskrá, til að mynda mál sem hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir hefur lagt mikla áherslu á á sínum pólitíska ferli og snýr að afnámi verðtryggingarinnar. Eitt mál því tengt bíður á dagskránni.

Það er raunar með ólíkindum, frú forseti, að þetta skuli ekki vera skoðað og enn ótrúlegra að formenn þingflokka hafi ekki fundað hér síðan á mánudag til að ræða skipulag (Forseti hringir.) þingstarfa, hvernig við getum komið hér að málum sem meira máli skipta fyrir heimilin (Forseti hringir.) í landinu.