139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:24]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég þakka kærlega fyrir þær upplýsingar að það sé verið að kalla hæstv. innanríkisráðherra í hús. Ég held að það muni liðka mjög fyrir öllum þingstörfum að fá hann hingað, og skoðanir hans, til að ræða við þingheim allan enda talar hann iðulega um að það skipti máli að halda uppi virðingu þingsins. Hann hefur meðal annars gert fyrirvara við það mál sem um ræðir hér vegna þess að það er svo mikið valdaframsal frá löggjafarvaldinu til framkvæmdarvaldsins.

Ég veit líka að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ákveðnar skoðanir á mörgum málum. Hann setur þær iðulega fram nokkuð tæpitungulaust úr ræðustóli þannig að velflestir skilja. Ég held að það væri ráð að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segði hug sinn, m.a. gagnvart þeirri tillögu sem liggur hér fyrir og þeirri tillögu okkar í stjórnarandstöðunni að við bíðum með að ræða þetta mál og hleypum að mikilvægari málum, málum sem eru í þágu heimilanna og fyrirtækjanna í landinu.