139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:27]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Mér er alveg óskiljanlegt hvers vegna þingmenn stjórnarandstöðunnar kalla svo mjög eftir því að það sé beðið með þessa umræðu. Ég hef skilið það á máli þeirra að hér sé um að ræða stórt og umfangsmikið mál sem mörg sjónarmið séu um af þeirra hálfu og full ástæða til að þeir hafi tækifæri til að færa þau sjónarmið fram. Það skyldi þó aldrei vera að sjónarmið þeirra í málinu séu að mestu leyti tæmd, enda hefur málið verið rætt í eina þrjá daga. Ég held að okkur sé ekkert að vanbúnaði að halda þeirri umræðu áfram, reyna að ljúka umfjöllun um málið og sinna með þeim hætti störfum okkar í stað þess að standa hér gapandi um fundarstjórn forseta svo nemur hundruðum skipta.