139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:33]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég skil mætavel að margir hv. þingmenn óski eftir því að ráðherrar séu viðstaddir þessa umræðu. Hér er verið að ræða frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands þannig að það er eðlilegt að það sé kallað eftir einstökum ráðherrum. Mér finnst að vísu sérkennilegt og veit ekki hvers þeir eiga að gjalda sem ekki hafa sérstaklega verið nefndir til sögunnar, eins og hæstv. utanríkisráðherra. Það hefur hvorki verið kallað eftir honum, hæstv. iðnaðarráðherra né hæstv. menntamálaráðherra. Mér finnst það synd, virðulegur forseti, að ekki skuli vera beðið um þá. Mér finnst að jafnframt eigi að óska eftir því að allir fyrrverandi ráðherrar séu kallaðir til þessarar umræðu, a.m.k. þeir sem eiga sæti á Alþingi og hafa setið í ríkisstjórn og geta tekið þátt í þessari umræðu. Jafnframt, virðulegur forseti, ættu allir verðandi ráðherrar að vera viðstaddir þessa umræðu. (Gripið fram í: Við erum öll … ráðherrar.)