139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:51]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur fram í umsögn frumvarpsins að það er lagt til að það mundi kosta aukalega um 100 milljónir. Þá er spurningin sem mér finnst þurfa að svara og mér finnst að hv. allsherjarnefnd hefði þurft að skoða sérstaklega: Með því að samþykkja þetta frumvarp núna, hvað þýðir það í útgjaldaaukningu fyrir ríkissjóð? Hver er staðan núna? Hvað eru margir aðstoðarmenn? Eru þeir 15? Eru þeir 12? Eru þeir 18? Eru þeir 10? Ég veit það ekki. Það eru þessar upplýsingar sem ég er að kalla eftir. Það er mjög lítil virðing fyrir fjárlögum eða fjármagni á þessum erfiðu tímum ef þetta liggur ekki fyrir. Af hverju gerir það það ekki? Það er sérkennilegt að upplifa það að ég þurfi að svara því og í rauninni giska á þetta. Þetta hefur komið fram í umræðum, þess vegna kalla ég eftir þessum upplýsingum. Mér finnst (Gripið fram í.) mjög mikilvægt að það komi fram hver hinn raunverulegi kostnaður er. Mér fyndist að hv. allsherjarnefnd hefði átt að kynna útgjaldaaukninguna með breytingartillögunni af því að hún leggur til þá breytingu að þetta ákvæði í frumvarpinu taki strax gildi en ekki eftir næstu kosningar.