139. löggjafarþing — 163. fundur,  14. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[23:55]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, það er sannarlega dapurlegt eða alvarlegt að við skerum niður til einmitt þessara stóru málaflokka sem skipta okkur öll svo miklu máli. Við upplifðum það á síðasta ári að gengið var mjög harkalega að eða átti að ganga mjög nærri heilbrigðisþjónustunni á landsbyggðinni. Það var dregið til baka að einhverju leyti, en nú er að kvisast út að fjárlögin fyrir næsta ár kunni að fela í sér áframhaldandi harkalegan niðurskurð á heilbrigðisþjónustu, m.a. á landsbyggðinni. Þá tek ég undir með hv. þingmanni, það er með ólíkindum í fyrsta lagi að menn skuli ekki hafa það nákvæmlega á hreinu hvaða kostnaður fylgir svona gæluverkefnum. Í annan stað er með ólíkindum að menn skuli ætla að setja gríðarlegar upphæðir í svona lagað á sama tíma og verið er að segja upp fólki í heilbrigðiskerfinu allt í kringum landið.