139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:31]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt mergurinn málsins. Hér er verið að færa vald frá Alþingi til framkvæmdarvaldsins, og ekki bara framkvæmdarvalds, heldur fyrst og fremst til eins ráðherra, hæstv. forsætisráðherra, sem fær með þessu mjög víðtæk völd til að gera breytingar og færa til verkefni innan ríkisstjórnarinnar. Við getum séð það fyrir okkur hvað það þýðir. Hvernig verður það í þeim málum sem ágreiningur er um í ríkisstjórn og menn þurfa að ná samkomulagi um á þeim bæ? Hvaða áhrif mun það hafa á störf viðkomandi ráðherra? Þora þeir að standa fast í lappirnar? Verkefnin verða bara tekin frá þeim ef þeir hlýða ekki duttlungum hæstv. forsætisráðherra, hverju sinni.

Ég held því að við séum í mjög varasömum farvegi hvað það varðar og að afleiðingar séu ekki fyrirséðar. Þær fara auðvitað mjög mikið eftir því fólki sem hefur þá ábyrgð á hverjum tíma, þeim einstaklingi sem hefur þá ábyrgð. Ég held að við séum öll sammála um það og ekki síst eftir efnahagshrunið. Það er lærdómur sem við eigum að draga af því að við viljum auka valddreifingu. Við viljum ekki auka á miðstýringu valds. Það á alveg við um ríkisstjórnina eins og annars staðar. Hér eru einum aðila færð mjög aukin völd. Ég skil hreinlega ekki hvernig (Forseti hringir.) hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna geta hugsað sér að styðja slíkt. (Forseti hringir.) Mörgum þeirra er það örugglega þvert um geð.