139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[00:35]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hræðist þetta og ekki bara í hvalveiðimálinu þótt það sé nokkuð augljóst hver þrýstingurinn yrði innan ríkisstjórnarflokkanna sem nú eru á Alþingi. Þar er andstaða hjá mörgum við hvalveiðar þótt margir séu þeim fylgjandi, þessir flokkar eru skiptir, en það yrði alveg örugglega verulegur þrýstingur á að t.d. þessi málaflokkur yrði færður frá sjávarútvegsráðherra. Röksemdirnar yrðu eflaust þær að hér væri mál sem víða annars staðar, eins og t.d. víðast hvar í Evrópusambandinu, fellur undir umhverfismál og við þyrftum að samræma það eins og annað sem að því kemur.

Í þessu ríkisstjórnarsamstarfi virðist öllu fórnandi á altari aðildarumsóknar að ESB. Við vitum að þetta á við í mörgum málaflokkum. Við vitum hvernig það er varðandi uppbyggingu í atvinnulífinu hér. Við vitum um hug margra þingmanna ríkisstjórnarflokkanna sem stefnir í allt aðra átt en ríkisstjórnin er að fara. Þingmenn tjá sig á torgum úti í bæ um að það þurfi að fara í aðgerðir, það þurfi að gera hitt og þetta en er síðan smalað inn í þingið með skottið á milli lappanna, vil ég segja, þar sem þeir styðja ríkisstjórnina áfram. Þannig er þetta. Það er öllu fórnað í þágu aðildarumsóknar að Evrópusambandinu, jafnvel mjög veigamiklum hagsmunum þjóðarinnar. Þannig mundi ég óttast að færi um þetta mál. Og ég mundi óttast líka, eins og staðan er núna á ríkisstjórnarheimilinu, að þeirri vinnu sem á að fara fram í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu vegna aðildarumsóknarinnar yrði komið með einhverjum hætti í burtu og undan þeim ráðherra sem stendur hvað fastast í lappirnar í þeim málum. (Forseti hringir.) Það er veruleg hætta á slíku á hverjum tíma, ekki bara í þessari ríkisstjórn heldur hjá öllum ríkisstjórnum sem á eftir koma.