139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:27]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að af þeim verkefnum sem ég taldi þarna upp séu fjölmörg óunnin og óljóst hver og hvar eigi að vinna þau. Í mínum huga eru þau mun brýnni en þetta verkefni.

Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni að eitt af þeim verkefnum sem þinginu var falið af sjálfu sér, af þingmannanefndinni, og samþykkt af öllu þinginu var að endurskoða lög um þingsköp. Það var gert í samráði allra. Það var unnið þannig að þegar umræða um það fór fram á vorþinginu rann það ljúflega í gegn þrátt fyrir alla þá spennu og tímaleysi sem þá réði vegna þess að þá var líka verið að troða átakamálum í gegnum þingið.

Það hefur auðvitað komið fram að efnahagshrunið breytti hér ýmsu og margt af því sem menn áður töldu og hv. þingmaður kom inn á í umræðum um fyrri breytingar á frumvarpi um Stjórnarráðið hafði einmitt þær afleiðingar að menn voru ávallt í þessu átakaferli. (Forseti hringir.)

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort ekki hefði verið skynsamlegt (Forseti hringir.) að setja þetta frumvarp inn í sama ferlið (Forseti hringir.) og þingskapaferlið.