139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:28]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég er alveg sammála því. Mér fannst vinnan við þingskapafrumvarpið til fyrirmyndar og það á við um fleiri frumvörp á þinginu.

Við lögðum til að með bráðabirgðaákvæði við þingsköpin yrði stofnuð sérstök eftirlitsnefnd strax í haust svo við þyrftum ekki að bíða fram á vor eftir að eftirlitsnefnd kæmi fram og það olli mér sem formanni þingmannanefndarinnar vonbrigðum að það skyldi ekki verða. Sú eftirlitsnefnd átti þegar frá haustdögum, frá nýju þingi í október sl., að fylgjast með því að fylgt yrði eftir ábendingum þingmannanefndarinnar og þingsályktuninni sem samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum. Það urðu mér vonbrigði að við skyldum missa þennan tíma úr, þennan vetur, og ég hygg að slík eftirlitsnefnd hefði getað kafað ofan í það hvort þetta frumvarp samrýmdist ályktunum og niðurstöðum þingmannanefndarinnar.