139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:29]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessa ræðu hefði verið hollt fyrir fulltrúa stjórnarliðsins að hlýða á (Gripið fram í: Jæja.) og alveg sérstaklega fyrir forustu ríkisstjórnarinnar sem ber meginábyrgð á því frumvarpi sem við höfum verið að ræða. Ég tel að eftir þessa öflugu, yfirgripsmiklu og málefnalegu ræðu liggi fyrir að veigamestu þættir frumvarpsins eru í algjörum tætlum (VigH: Rétt.) og það er óhjákvæmilegt fyrir ríkisstjórnina við þessar aðstæður að stíga nú fram og lýsa því yfir að skynsamlegast sé að leggja þetta mál til hliðar og vinna það með þeim hætti sem hv. þingmaður mælti fyrir um og stakk upp á, að ná mönnum saman til að ná einhverri sátt um þetta mikilvæga mál.

Kjarni málsins er sá sem hv. þingmaður sagði áðan, frumvarp til laga um Stjórnarráð Íslands er ekki augnabliksmál. Það er ekki mál af því tagi sem við erum að breyta frá degi til dags. (Gripið fram í: Ekki átakamál.) Þetta á ekki að vera átakamál en það er hins vegar búið að gera þetta að átakamáli með vinnubrögðum hæstv. ríkisstjórnar. (Forseti hringir.) Ábyrgð hæstv. ríkisstjórnar er þess vegna öll í þessu máli.