139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:31]
Horfa

Atli Gíslason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hlý orð andmælenda í minn garð, þar á meðal þess sem síðastur flutti ræðu, hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar.

Hér kom ekki fram bein spurning en hann gaf mér samt tilefni til að minnast þess að ég hef dvalið í Noregi við nám og fylgst með lagasmíð þar. Hún er til muna ólíkt vandaðri en hér og þetta segi ég vegna þess að það hefur verið minnst á Noreg sem fyrirmynd þessa frumvarps. Þar vinna menn það sem þeir kalla NOU eða „Norges offentlige utredninger“. Það er mjög vönduð vinna þar sem vandamál eru greind. Þetta eru nefndir skipaðar af þingi eða stjórnum og þær vinna upp slíkar skýrslur og benda í þeim á þau atriði sem betur mættu fara í löggjöf. Slík fagleg undirbúningsvinna með fullu samráði við alla hagsmunaaðila og aðra leiðir síðan til þess að upp úr slíkri skýrslu er unnið faglegt, gott frumvarp. Ég hefði gjarnan viljað sjá þau vinnubrögð tíðkuð varðandi stjórnarráðsfrumvarpið.