139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:32]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða hv. þm. Atla Gíslasonar fletti ofan af mjög alvarlegum blekkingaleik. Við höfum tekið eftir því í þessari umræðu að það hefur verið þrástagast á því að frumvarpið byggi annars vegar á vinnu rannsóknarnefndar Alþingis og hins vegar vinnu þingmannanefndarinnar sem síðar var kosin. Nú hefur hv. þingmaður sýnt fram á það með algjörlega óyggjandi hætti að svo er ekki. Þess vegna er mikið alvörumál og ábyrgðarhluti þegar það kemur nú í ljós, m.a. og ekki síst vegna ræðu hv. þingmanns, formanns þingmannanefndarinnar, að hér hafa í öllum veigamestu atriðum verið sniðgengnar þær ábendingar sem þingmannanefndin og rannsóknarnefndin hafa haft fram að færa á þessu sviði. Með öðrum orðum virðist blasa við að það hafi átt að keyra þetta mál áfram með blekkingum og hreinlega ósannindum þar sem því var skrökvað upp á þingmannanefndina og rannsóknarnefndina að tillögur þeirra lægju til grundvallar þessu frumvarpi.