139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:39]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Engum blöðum er um það að fletta að hér var flutt tímamótaræða í þessu máli, ræða hv. þm. Atla Gíslasonar, sem er kannski betur að sér í þeim skýrslum sem unnar hafa verið en mörg okkar. Hann flutti mjög sterk rök fyrir máli sínu. Ég held að allt of fáir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna hafi heyrt þessa ræðu. Ég held að það væri ráð fyrir forustumenn þeirra flokka og þessa þingmenn að kalla saman þingflokksfund og spila ræðuna, hlusta á hana og fara yfir stöðu málsins í kjölfarið og sjá hvaða vitleysa er á ferðinni. Það væri þeim öllum hollt.

Ég hefði gjarnan viljað hvetja þá sem voru hér og hlýddu á ræðuna til að óska eftir leyfi hjá virðulegum forseta til að mega koma í ræðustól núna og svara þeim málflutningi sem þar kom fram og koma með rök sín á móti því sem hér hefur verið flutt. (Forseti hringir.) Fróðlegt væri að hlýða á þann málflutning.