139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Vissulega er það freistandi að taka til máls hér eftir ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar, sérstaklega í ljósi þess hversu uppnumin stjórnarandstaðan virðist vera yfir þeim skilaboðum sem komu frá hv. þingmanni. Öðruvísi mér áður brá. Ekki voru þingmenn Sjálfstæðisflokksins jafnuppnumdir og hrifnæmir yfir niðurstöðu þingmannanefndarinnar á sínum tíma. (Gripið fram í: Alltaf jafnmálefnalegur.) Er þetta ómálefnalegt? (Gripið fram í: Já.) Ekki voru þeir jafnuppnumdir yfir niðurstöðu þingmannanefndarinnar á sínum tíma, sérstaklega dómnum yfir fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, en batnandi mönnum er best að lifa.

Ég ætla að bíða þess að fleiri tali í þessu máli og mun svo svara fjölmörgum spurningum sem til mín og nefndarmanna hefur verið beint. En ég geri ráð fyrir því að mér gefist tóm til að koma mér á mælendaskrá án þess að njóta sérstakrar aðstoðar stjórnarandstöðunnar til þess.