139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:54]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (um fundarstjórn):

(Forseti (ÁI): Forseti vill árétta að undir þessum dagskrárlið ber að ræða fundarstjórn forseta.)

Virðulegi forseti. Ég kem náttúrlega ekki upp undir þessum dagskrárlið nema til að ræða fundarstjórn forseta. Hvernig dettur forseta annað eins í hug? Ég er t.d. að koma hér til að ræða fundarstjórn forseta til að fá skýringar á því hvað hæstv. forseti á við með því að hér verði talað eitthvað inn í nóttina. Hvað er klukkan þegar sá tími er komin að talað er inn í nóttina? Nú vantar klukkuna fimm mínútur í tvö, frú forseti. Getur frú forseti gefið betri skilgreiningar á þessari tímasetningu? (Gripið fram í.)

Komið hefur fram að það séu fundir í þingnefndum í fyrramálið. Hér er skyndilega margt fólk í húsinu, margir ráðherrar komnir hingað inn. Hvað á þessi fundur að standa lengi, frú forseti? Ég vil jafnframt koma inn á það varðandi fundarstjórn forseta sem ég kom inn á í fyrri ræðu minni í kvöld undir þessum dagskrárlið, að ég hvet þá forseta sem sitja í stjórnarmeirihlutanum að ávíta sitt fólk þegar þeir koma sífellt upp og gera lítið úr þingmönnum stjórnarandstöðunnar.