139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:57]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hef tekið eftir því að sá forseti sem nú situr á forsetastóli mætir yfirleitt hér til leiks rétt þegar fer að halla í miðnætti og virðist hafa það hlutverk sérstaklega að svara út úr þegar spurt er eftir því hvernig þingfundum verður háttað. Ég þekki söguna um véfréttina frá Delfí, og margir gera það, þar sem véfréttin svaraði spurningum með mjög óljósum hætti og allir beygðu sig og hlustuðu og sögðu: Hér er talað af miklu hyggjuviti. Hæstv. forseti sem nú situr á forsetastóli virðist vera að tileinka sér þetta fyrirkomulag við stjórn fundarins, að tala með óljósum hætti og án þess að nokkur einasti maður skilji hvað hæstv. forseti er að meina.

Hvað þýðir það að tala inn í nóttina? Hæstv. forseti verður auðvitað að svara skýrt þegar spurt er einfaldra spurninga eins og þeirra hversu lengi þessi fundur eigi að standa. (Gripið fram í.) Það liggur fyrir að boða á til nefndafunda í fyrramálið og ef ætlunin er að halda hér áfram öllu lengur er augljóst að það verður að fara að afboða þá fundi. Það gengur auðvitað ekki að vinna með þessum hætti langt fram eftir nóttu og ætlast síðan til þess að menn komi hér á (Forseti hringir.) mikilvæga fundi í morgunsárið.