139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[01:58]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég kem upp og ítreka þá fyrirspurn mína hverjir stjórni þinginu og hver sé ástæða (Gripið fram í: Foringjaræðið.) þess að það sé ekki skýrt fyrir okkur þingmönnum hversu lengi fundur standi í þinginu og hvaða mál eigi að afgreiða. Fyrir fram, í starfsáætlun þingsins, frú forseti, var fyrirhugað að þinginu mundi ljúka á morgun. Ég býst við að margir þingmenn hafi planað líf sitt, fundi og önnur störf samkvæmt því, störf úti í kjördæmum til að mynda, og það er auðvitað algerlega forkastanlegt, frú forseti, að við séum hér í tilgangslausri umræðu þar sem forustumenn stjórnarflokkanna taka ekki þátt í henni. Það getur vel verið að þeir séu í húsi og það getur vel verið að hv. stjórnarliðar séu að hlusta en þeir taka ekki þátt í umræðunni, alveg sama hvað nýtt kemur fram. Það hlýtur að vera mikilvægt fyrir okkur, frú forseti, að vita innan hvaða tímaramma við vinnum og hvenær við ætlum að ljúka störfum því að annars verður enginn árangur af störfum okkar.