139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[02:06]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hér á Alþingi sat einu sinni þingmaður sem margir þekkja, sem hafði gjarnan á orði þegar hann var að gera sitt ýtrasta til þess að hamla framgangi þingsins að hann væri að greiða fyrir þingstörfum. Mér finnst þetta vera að birtast okkur núna, með svörum hæstv. forseta við eðlilegum spurningum okkar þingmanna um hvernig hæstv. forseti sæi fyrir sér að þinginu yndi fram á þessum sólarhring. Ég er farinn að hafa svolitlar efasemdir um það hvort maður eigi að ganga harðar eftir svari, því hæstv. forseti virðist frekar færast í aukana. Fyrsta svarið við spurningunni var að það yrði inn í nóttina, þegar útskýringa var síðan leitað á þessu var brugðið á nýtt orðalag sem var eitthvað inn í morguninn. Þess vegna ætla ég að spara það að spyrja enn eftir þessu, vegna þess að mér finnst ekkert ólíklegt að hæstv. forseti yfirbjóði sjálfa sig og greini okkur frá því að fundurinn verði haldinn eitthvað enn þá lengur.

Sömuleiðis vil ég segja að mér finnst að sérkennileg viðbrögð stjórnarliða, ekki síst þeirra sem bera með einhverjum hætti ábyrgð á málinu, m.a. í gegnum hv. allsherjarnefnd, hafi ekki verið beinlínis til þess fallin að greiða fyrir því að málið yrði leitt til lykta og umræðunni lokið. Hér höfum við hvað eftir annað innt eftir svörum við tilteknum spurningum við efnisatriði frumvarpsins en að því hefur ekki verið hugað. Þetta er t.d. mín þriðja ræða, hygg ég, og andsvör þeirra sem hafa tekið til máls í þessu hafa byggst á því að hv. þingmenn hafa beðið um orðið áður en t.d. efnisleg umræða hefur hafist af minni hálfu og þess í stað hafa þeir farið að ræða um allt aðra hluti, gjarnan óskylda hluti, án þess að svara efnislegum spurningum sem settar hafa verið fram. (Gripið fram í: Þetta er engin umræða.)

Til dæmis hef ég mjög velt því fyrir mér hvers vegna svona mikil áhersla er lögð á að ljúka málinu núna á þessum fáu dögum. Það hefur verið rakið mjög ítarlega, m.a. í ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar áðan og hjá fjölmörgum öðrum, að ekki sé mjög skynsamlegt að afgreiða mál af þessu tagi eins og lögin um Stjórnarráð Íslands sannarlega eru, í miklum ágreiningi, í miklu hasti, án þess að menn reyni að leita lausna eða leiða til þess að komast út úr því öngþveiti sem greinilega er að skapast í kringum málið. Það öngþveiti hefur fylgt því algjörlega frá upphafi, frá fyrsta degi sem það var lagt inn í ríkisstjórn og það er enn í miklu öngstræti.

Þess vegna finnst mér mjög brýnt að fá því svarað hvað það er sem gerir það að verkum að menn telja svo mikilvægt að afgreiða málið þrátt fyrir þennan mikla ágreining og þrátt fyrir að í umræðunni hafi hvað eftir annað verið imprað á ýmsum möguleikum sem hægt væri að skoða til þess að reyna að freista þess að ná meiri sátt um það.

Ég vek líka athygli á því sem mér finnst vera stór tíðindi í þessu máli. Frumvarpið var á sínum tíma lagt fram með áformum um að hámarksfjöldi ráðuneyta skyldi vera tíu. Það er út af fyrir sig alveg stefna og sjónarmið. Við vitum að í gildandi lögum eru ráðuneytin talin upp og gert ráð fyrir því að ef menn hyggja á breytingar í þeim efnum þurfi að leggja málið fyrir Alþingi að nýju. Í frumvarpinu var eins og allir vita horfið frá því sjónarmiði en þess í stað sagt að þak yrði á fjölda ráðuneyta. Breytingartillaga hv. meiri hluta allsherjarnefndar gengur hins vegar út á að hverfa frá þessu. Fyrir því eru færð síðan mjög skýr rök. Efnislega eru rökin þau að með því fyrirkomulagi sem hæstv. forsætisráðherra mælti fyrir og rökstuddi ítarlega í greinargerð með frumvarpinu og ræðu sinni þegar málinu var fylgt úr hlaði, sé verið að brjóta stjórnarskrá, hvorki meira né minna.

Ég kallaði eftir svörum frá hæstv. forsætisráðherra sem sat nú raunar ekki í sæti sínu þegar ég flutti ræðu mína. Ég gerði mér vonir um að hæstv. ráðherra hefði hlýtt á ræðu mína, vegna þess að mér finnst að þetta atriði sé af þeim toga að það geti ekki legið hér og því sé ósvarað alla umræðuna. Það verður auðvitað að bregðast við þessu. Var málið svo illa undirbúið af hálfu hæstv. forsætisráðherra að ekki var hugað að því hvort þetta stóra atriði væri í samræmi við stjórnarskrá að mati hæstv. forsætisráðherra? Auðvitað hlýtur hæstv. forsætisráðherra að hafa gengið út frá því að frumvarpið sem hún lagði fram væri í samræmi við stjórnarskrá. Ég ætla engum annað en að hafa reynt að hugsa það þannig. Síðan gerist það að meiri hluti hv. allsherjarnefndar kemst að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki, þetta sé stjórnarskrárbrot. Það eru gríðarlega mikil tíðindi og maður hlýtur að kalla eftir því frá hæstv. forsætisráðherra sérstaklega hvort ekki hafi verið hugað að þessu við undirbúning málsins.

Tíminn líður hratt. Mig langar að koma inn á eitt atriði. Það hefur verið mjög mikið rætt um þetta pólitíska aðstoðarmannakerfi upp á 23 aðstoðarmenn. Fyrir því hafa verið færð tiltekin rök. Í fyrsta lagi hefur verið sagt að með því móti væri hægt að draga úr því sem menn hafa kallað pólitískar ráðningar. En er það þannig? Mun tilkoma 23 aðstoðarmanna, þar af þriggja sem hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir kallar með smekklegum hætti „stormsveitina“, þegar búið er að setja 23 pólitíska aðstoðarmenn inn í ráðuneytin, hverfi algjörlega freistingin til pólitískra ráðninga í öllu kerfinu? Þessi spurning svarar sér sjálf. Auðvitað er það ekki þannig. Þetta er í sjálfu sér ekki innlegg í það. Þó að sett séu á fót embætti 23 aðstoðarmanna, þar af þriggja stormsveitarmanna, svo ég noti nú orðalag hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, þó að mér finnist það nú mjög ósmekklegt í sjálfu sér, mun það auðvitað ekki hafa nein áhrif á slíkt.

Í öðru lagi er það misskilningur hjá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur þegar hún sagði áðan að gert væri ráð fyrir því að 20 aðstoðarmenn dreifðust á ráðuneytin og tveir aðstoðarmenn væru í hverju ráðuneyti. Það er ekki þannig. Breytingartillögur meiri hluta hv. allsherjarnefndar kveða nefnilega á um að hámarksfjöldi ráðuneyta, sem í frumvarpinu sagði að ættu að vera tíu, hverfur. Enginn mun vita hversu mörg þessi ráðuneyti eiga að vera í framtíðinni, þau geta verið fimm, þau geta verið fimmtán eða raunar hvað sem er. Þetta er því mikill misskilningur. Vonandi er hugsunin ekki þannig að ef ráðuneytum verður fjölgað verði talan mun hærri en 23. Þetta rekur sig allt saman hvað á annars horn.

Menn verða auðvitað að skoða þessi mál í einhverju samhengi. Gleymum því ekki að á sínum tíma var hér flutt frumvarp um að sameina nokkur ráðuneyti. Eins og allir vita var horfið frá því að nokkru leyti. Horfið var frá sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins, en rökin fyrir því að ganga í það að sameina ráðuneyti voru m.a. þau að spara peninga. Nú er hins vegar lögð fram breytingartillaga sem felur í sér fjölgun aðstoðarmanna. Ég verð að segja, og tek undir orð margra annarra, að greinilegt er að þetta mál hefur verið unnið í miklum flýti. Það hefur ekki einu sinni verið hugað að því að skoða kostnaðinn af þessu eða virkni þessa eða nokkuð annað. Þetta er eitthvað sem fæðist í nefndinni og hefur greinilega ekki fengið þá umræðu sem það verðskuldar.

Ég er ekki að tala gegn því að ráðherrar hafi aukinn styrk af aðstoðarmönnum til pólitískrar stefnumótunar, það er í sjálfu sér ekki skökk hugsun, en í fyrsta lagi verða menn að skoða þetta í öðru samhengi, í samhengi við styrk Alþingis sem hér hefur verið mjög hafður á orði. Í öðru lagi hljóta menn að gera þá einföldu kröfu að menn hugsi svona mál til enda, geri sér grein fyrir því að um leið og búið er að opna á að fjölga ráðuneytum og líka að skipta ráðuneytum og búa til einhvers konar undirráðuneyti eða hliðarráðuneyti, eins og boðað er í frumvarpinu, þá er öll þessi hugmyndafræði orðin mjög sérkennileg og gengur ekki upp eins og blasir við öllum. (Forseti hringir.)