139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[02:27]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því í ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar að hann lagði einmitt áherslu á að tillögur nefndanna sem við höfum svo mjög rætt hérna um hafi gengið út á það að auka formfestu og formfesta í þessum skilningi væri þá andstæðan við sveigjanleika. Við skulum viðurkenna að auðvitað þarf stjórnsýslan okkar að vera sveigjanleg en hún þarf hins vegar að lúta tilteknum almennum reglum og lögmálum sem hún á að fara eftir.

Það sem mér hefur fundist þegar ég skoða þetta og velti fyrir mér hugtakinu sveigjanleiki, sem er eiginlega notað til að afsaka alla hluti í þessu frumvarpi, er að fyrst og fremst sé verið að vísa til þess að frumvarpið dugi til að sveigja og beygja Alþingi vegna þess að það er verið að taka völd sem Alþingi sannarlega hefur haft í gegnum löggjöfina og færa þau til framkvæmdarvaldsins. Það finnst mér vond þróun.