139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[02:34]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef kannski ekki miklu við það að bæta sem mjög margir hafa bent á og hv. þingmaður vakti athygli á, að þetta gæti auðvitað leitt til þess að umræður sem ella færu fram á hefðbundnum ríkisstjórnarfundum ættu sér stað einhvers staðar annars staðar.

Ég tók eftir því að þegar var verið að rökstyðja þetta var það gert m.a. með því að ef menn vissu að ríkisstjórnarfundirnir væru hljóðritaðir yrðu fundargerðirnar ítarlegri, nákvæmari og ættu — eins og kemur raunar fram í lagatextanum — að endurspegla umræður á ríkisstjórnarfundunum. Samkvæmt frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir því að þessar fundargerðir, sem þá verða orðnar miklu nákvæmari, verði gerðar opinberar eftir eitt ár þannig að þá verður væntanlega búið að ljóstra upp flestum þeim leyndarmálum sem fara fram á ríkisstjórnarfundum. Sé tilgangurinn sá, eins og hefur verið nefnt m.a. af flutningsmönnum þessara tillagna, að búa til nákvæmari fundargerðir finnst mér þetta stangast svolítið hvort á annars horn, annars vegar fundargerðir sem endurspegla umræðurnar (Forseti hringir.) og koma út ári síðar og hins vegar hljóðbækurnar sjálfar eftir 30 ár.