139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[02:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í umræður Siglfirðinga um vertíðir eða annað enda hittumst við Skagfirðingar og Siglfirðingar yfirleitt í Ketilási þegar á þarf að halda.

Mig langar hins vegar að spyrja hæstv. forseta þeirrar spurningar hvort eitthvað hafi gerst varðandi þá beiðni mína, sem reyndar var beint til annars forseta, að þingflokksformenn setjist niður með forseta og reyni að átta sig á planinu og skipulaginu á þingstörfunum. Einn hv. þingmaður orðaði það svo að þegar ríkisstjórnin var búin að fara suður á Suðurnes og vestur á firði og eitthvert annað að boða einhver úrræði, að það væri eins og hringleikahús sem færi hringinn í kringum landið og skemmti fólki. Það er þá ágætt ef færa á það til bókar og spila það í útvarpsleikriti seinna meir, eins og mér heyrist að menn hafi verið að ræða hér.

Herra forseti. Það er mikilvægt að það sé festa í þingstörfunum sem er ekki í dag og hefur ekki verið undanfarið. Það er líka mikilvægt að þingmenn fái svör við þeim spurningum sem þeir beina til forseta, ekki síst varðandi framhald á fundinum.