139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[02:42]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Fyrr í kvöld lýsti ég áhyggjum mínum af fundarstjórn forseta. Ég vil af umhyggju fyrir hæstv. forseta ítreka þær áhyggjur mínar af fundarstjórn þar sem hæstv. forseti virðist eiga bágt með að svara spurningum sem að honum er beint. Hann svarar þeim með einkennilegum og óljósum hætti eða vísar til lífsreynslu sinnar á Siglufirði um einhverja hluti sem eru alveg ótengdir því sem forseti starfar nú við í fundarstjórn.

Ég hygg að hæstv. forseti verði að fara að útskýra fyrir þingheimi hvað átt er við þegar sagt er að tala eigi inn í nóttina. Nú er klukkan að halla í þrjú. Hæstv. forseti hlýtur að geta svarað því með einföldum hætti hvort til standi að halda áfram fundi fram yfir klukkan þrjú.

Ég ítreka enn og aftur að ég varpa þessum spurningum fram til virðulegs forseta af einskærri umhyggju fyrir fundarstjórn hans til að hann geti svarað okkur með skilmerkilegum hætti.