139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[02:44]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir orð síðasta ræðumanns, hv. þm. Jóns Gunnarssonar. Að því loknu vil ég síðan gera alvarlegar athugasemdir við fundarstjórn forseta. Ég held að það skilji það ekki nokkur maður að ekki sé hægt að svara okkur þingmönnum með einföldum og skýrum hætti um hversu lengi áætlað sé að tala í þessari fundarlotu í kvöld. Í nótt? Til morguns?

Fyrr í kvöld spurði hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir um áætlaðan Þingvallanefndarfund en þá sat í forsetastól sá hv. þingmaður sem er í forsvari fyrir Þingvallanefnd og er nú horfinn af vettvangi. Er meiningin að við, almennir þingmenn í þeirri nefnd, eigum að vera hér til morguns. Hvernig eigum við að koma undirbúnir til þess fundar sem þá verður haldinn?

Það er óskiljanlegt fyrir alla þá sem á horfa (Forseti hringir.) að við fáum ekki skýr svör um hvenær þessum fundi lýkur.