139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[02:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Okkur, þessum nýju í þinginu, hefur verið sagt frá þeirri hefð sem hefur líka verið praktíseruð frá því að við komum hingað að fundað sé með þingflokksformönnum um dagskrá þingsins og þess háttar. Nú hefur ekki verið fundað með þingflokksformönnum síðan á mánudag og ég geri ráð fyrir að það sé kominn fimmtudagur ef ég er ekki alveg orðinn ruglaður í dögunum. Maður veltir fyrir sér hvort nýja stefnan sé þá að fara eftir því frumvarpi sem hér er verið að ræða og vera bara með einhvers konar þingforsetaræði.

Þetta gengur ekki, herra forseti. Við erum að tala um mál sem ekki hefur fengist nokkur einasta skýring á af hverju liggur svona á að klára. Hvorki nokkur óbreyttur stjórnarþingmaður né ráðherra hefur komið hér upp og útskýrt fyrir okkur af hverju þetta er áherslumál ríkisstjórnarinnar á þessum svokallaða septemberstubbi. Við hljótum mörg að velta vöngum yfir því þegar við sjáum öll önnur mál sem eru á listanum. Við vitum að heimildir um gjaldeyrishöft (Forseti hringir.) renna út um næstu mánaðamót en við erum ekki að ræða það hér. Við erum að ræða (Forseti hringir.) algjört aukamál.