139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[02:56]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég lýsi yfir vonbrigðum mínum með fundarstjórn herra forseta þar sem hann neitar að gefa okkur upp þann tíma hvenær hann hyggist ljúka hér fundi. Ég er hingað kominn til að taka undir beiðni formanns þingflokks Framsóknarflokksins, hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar, um að þingflokksformenn verði kallaðir saman á fund forseta til að fara yfir skipulag þessa þingfundar sem og starfa í nótt og næstu daga.

Það er ótrúlegt að þingflokksformenn hafi ekki komið saman síðan á mánudag. Ég held að það þurfi að leita einhverja áratugi aftur í tímann til að finna að á lokadögum þingsins hafi formenn þingflokka ekki hist dögum saman. Þvílíkt verklag. Það skýrir kannski af hverju hér bíða mál sem snerta almannahagsmuni á meðan við erum látin ræða eitthvert einkamálefni hæstv. forsætisráðherra. Hafi oddvitaræðið einhvern tíma verið skýrt er það í þessu máli. (Forseti hringir.) Ég held að við ættum líka að fá hæstv. forsætisráðherra í salinn til að eiga orðastað við okkur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

(Forseti (KLM): Eins og forseti hefur sagt hyggst hann ganga aðeins á þennan mælendalista sem telur enn 11 hv. þingmenn og ítrekar að því fyrr sem við komumst í það getum við lokið þessum fundi. Forseti hyggst taka tvo ræðumenn í viðbót.)