139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[02:59]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. forseta fyrir að sýna ákveðna stjórnvisku þó að seint sé. Þegar hæstv. forseti fékk næði til að hugsa sitt ráð komst hann að niðurstöðu sem leysti pínulítinn hnút hérna og er það kannski forsmekkurinn að því sem síðar kann að koma ef sömu stjórnvisku er beitt í málinu í heild.

Ég ætla, hæstv. forseti, að biðjast afsökunar á orðum sem ég lét falla í ræðu upp úr hádegi í dag. Ég gekk fulllangt í því að segja að ég hefði borið fram fjölmargar spurningar en engin svör fengið. Ég vil taka það fram að nokkur atriði af þeim sem ég hef getið um hér í ræðum mínum hafa orðið tilefni til svara af hálfu þingmanna stjórnarflokkanna og þá vil ég einkum nefna til sögunnar hv. þingmenn Álfheiði Ingadóttur og Valgerði Bjarnadóttur, sem hafa fylgst vel með umræðum og blandað sér í þær, reyndar ekki nú um nokkurt skeið en á fyrri stigum komu frá þeim svör við ákveðnum spurningum. Rétt er að geta þess sem vel er gert, þær svöruðu ákveðnum spurningum sem ég hef varpað fram í þessum umræðum og vil ég þakka fyrir það.

Ég vildi hins vegar nefna það aftur sem ég kom inn á í ræðu minni fyrr í dag, eða í gær raunar, að fyrir utan 2. gr. frumvarpsins, sem er sú grein sem mest hefur verið rætt um og hefur valdið hvað hörðustum deilum, eru fjölmörg önnur atriði í frumvarpinu sem krefjast nánari skoðunar. Ég rakti í síðustu ræðu minni 12 önnur atriði í frumvarpinu sem ég teldi að þyrftu nánari skoðunar við. Þar er bæði um að ræða efnisþætti sem ég tel að séu ýmist gallaðir eða þarfnist að minnsta kosti frekari skýringa áður en ákvæðin eru lögleidd. Ég vildi, vegna þess að ég er ekki viss um að ég hafi gert það áður í þessari umræðu, greina hæstv. forseta frá því að í ljósi þess mun ég, ljúki þessari 2. umr. einhvern tímann, óska eftir því að málið gangi til nefndar milli 2. og 3. umr. Þannig að þeirri ósk sé komið skýrt á framfæri.

Það er að mínu mati nauðsynlegt að taka þessi 12 atriði fyrir. Kannski hafa fleiri þingmenn efnisatriði þar um sem þeir vildu nefna og taka fyrir. Þetta eru atriði sem bæði eiga sér rót í upphaflegu frumvarpi og eins sem rekja má til breytingartillagna meiri hluta allsherjarnefndar. Ég get til upprifjunar nefnt þessar greinar. Ég næ náttúrlega ekki í stuttri ræðu að fara ofan í athugasemdir mínar við þær einstöku greinar en ég hef nefnt 2. mgr. 4. gr. sérstaklega, 6. gr., 7. gr., einkum þó breytingartillöguna um hljóðritun ríkisstjórnarfunda, 8. gr., þ.e. spurninguna um afskipti forsætisráðherra af málefnum einstakra ráðherra, 11. gr., þar sem ég hef ákveðnar áhyggjur af orðalagi, 12. gr., þar sem ég tel að óljóst sé hvað óbindandi álit á að þýða, 13. gr., sem varðar eftirlit með sjálfstæðum stjórnvöldum — og ég minni hv. þingmenn meðal annars á athugasemdir sem hafa komið fram frá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur hvað það varðar og 14. gr. tengist því — 18. gr., varðandi ráðningarmál og fyrirsvar við ráðningar þar sem ég tel að þurfi að skýra hlutina þó að ég geri ekki efnislegar athugasemdir við þá hugsun sem ég hygg að sé í breytingartillögu meiri hlutans en tel að gera þyrfti lagatextann skýrari. Nú síðan nefndi ég 20. gr. og 22. gr., sem hefur reyndar fengið nokkra umræðu síðan ég gerði athugasemd við hana en engu að síður þarf að skýra hana örlítið nánar, einkum þó að því leyti hver eigi að skera úr um hvernig skipa eigi aðstoðarmönnum á einstaka ráðherra því að það er ekki ljóst af breytingartillögum hv. meiri hluta allsherjarnefndar. Að lokum vildi ég nefna 25. gr. þar sem ég vildi aðeins velta því upp hvort þörf væri á að breyta orðalagi varðandi samhæfingarnefnd um siðferðisleg viðmið, sem hún heitir, og samráð við Ríkisendurskoðun og umboðsmann Alþingis sem þarf að undirstrika, eins og ég nefndi í ræðu minni fyrr í dag, að eru sjálfstæðar stofnanir sem starfa á vegum Alþingis og heyra ekki með neinum hætti undir Stjórnarráðið eða einstök ráðuneyti.

Allt eru þetta atriði, hæstv. forseti, sem ég tel að þurfi að taka til nánari skoðunar til viðbótar við 2. gr., stóra ágreiningsmálið. Ég hygg að í mörgum tilvikum þurfi ekki endilega miklar umræður eða miklar breytingar til að ná saman um þessi ákvæði. En ég teldi hins vegar ótækt að málið næði fram að ganga og greinarnar yrðu samþykktar eins og þær liggja fyrir án þess að um frekari skýringar væri að ræða, án þess að orðalag væri skýrt og meiri hlutinn í allsherjarnefnd og meiri hluti þingsins gerði ljóst með skýrari hætti hvað verið er að fara með þeim breytingum sem lagðar eru til.

Hæstv. forseti. Fyrr í þessum umræðum beindi ég ákveðnum spurningum til hv. þm. Róberts Marshalls, framsögumanns og formanns allsherjarnefndar. Ég veit að ég get ekki knúið hann, og hæstv. forseti ekki heldur, til að svara þeim spurningum. Hann hefur lýst því yfir að hann muni gera það áður en yfir lýkur. En ég vil bara minna á að spurningum hefur verið beint til hv. þm. Róberts Marshalls og ég vonast til þess að hann sjái sér fært að svara þeim þegar lengra líður. Hann hefur fylgst vel með umræðunni og ábyggilega tekið niður þær spurningar sem til hans hefur verið beint og önnur þau sjónarmið sem hann telur sér skylt að svara. Ég bíð bara spenntur eftir að heyra svör hans við því, hvenær svo sem hann telur ástæðu til að koma inn í umræðuna með efnislegum hætti.

Að lokum, hæstv. forseti, vildi ég geta þess að mér er kunnugt um að hæstv. forsætisráðherra er í húsinu. Ég hef nefnt það fyrr í þessari umræðu að ég vildi beina ákveðnum spurningum til hennar. Nú þykist ég vita að hæstv. forsætisráðherra fylgist með umræðunni og ræðu minni og því ætla ég að láta spurninguna flakka þó að ég sjái hana ekki í augnablikinu. (Gripið fram í.) En ég held að það væri nauðsynlegt að hæstv. forsætisráðherra útskýrði fyrir þingheimi hvaða áform hún hefur um að nýta sér þær heimildir sem embætti hennar eru færðar í frumvarpinu. Ég held það væri mjög mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra sýndi spilin í þeim efnum. Einhverja áætlun hlýtur hún að hafa og það væri mjög óeðlilegt ef hún greindi ekki þinginu frá því, hafi hún slíka áætlun, þegar málið er til umræðu. Það væri verulega óeðlilegt ef forsætisráðherra hefði einhverja áætlun um að nýta heimildir sem í frumvarpinu felast en segði þinginu ekki frá því. Þó að ég ætlist ekki til að hæstv. forsætisráðherra hlaupi til og svari mér í hvelli árétta ég að það er nauðsynlegt að forsætisráðherra greini frá áformum sínum um nýtingu þeirra heimilda sem henni eru færðar í frumvarpinu áður en þessari umræðu lýkur.