139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[03:19]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú ætla ég ekki að svara fyrir hv. formann allsherjarnefndar eða þá hæstv. ráðherra sem hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi. Ég er sammála honum um að það er mikilvægt að þessir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar geri grein fyrir sjónarmiðum sínum í málinu. Ég held að það sé mikilvægt fyrir umræðuna. Ég tel að það væri gagn af því að það gerðist sem fyrst í þessari umræðu. Hugsanlega væri það til þess fallið að (Gripið fram í.) stytta umræðuna ef góðar skýringar kæmu fram af hálfu þessara hv. þingmanna og hæstv. ráðherra. Það gæti hjálpað til við afgreiðslu málsins.

Hver beiting þeirra ákvæða sem ætlunin er að setja í stjórnarráðslög verður, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi, er lykilspurning. Hv. þingmaður heyrði til mín í ræðu minni áðan þegar ég sagði að ég teldi gríðarlega mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra greindi frá því hvaða áform hún hefði um beitingu þeirra heimilda til breytinga á Stjórnarráðinu sem frumvarpið felur í sér. Ég er sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal um það að einhver áætlun, einhver áform, hljóti að vera fyrir hendi hjá hæstv. forsætisráðherra og þeim hv. þingmönnum sem styðja hana í þessu máli. Einhver áætlun hlýtur að vera fyrir hendi, annars væri ekki þessi asi í sambandi við afgreiðslu málsins. Það er engin rökleg skýring á því að við séum að keppast við að klára þetta mál á örfáum dögum í tímahraki (Forseti hringir.) ef það eru engin áform uppi um að nýta þær heimildir sem felast í frumvarpinu.