139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[03:24]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Eins og ég og fleiri þingmenn bentum hæstv. forseta á fyrr í kvöld skiptir máli að umræðan hér verði til gagns. Til að svo geti orðið verða þeir sem að málinu öllu standa og leggja slíka ofuráherslu á að knýja það í gegn, að vera til staðar til þess að hlýða á umræðuna, þær ábendingar sem þar koma fram og þær viðvaranir sem menn reifa.

Ef hæstv. forsætisráðherra tekur ekki þátt í umræðunni, hlustar ekki einu sinni á hana, hver er þá tilgangurinn með því að koma slíkum ábendingum á framfæri? Það hlýtur að vekja upp spurningar í huga hæstv. forseta um hvort ekki skapist hætta á því að menn neyðist til þess að endurflytja sömu ræðurnar til að reyna að koma þeim til hæstv. forsætisráðherra í þeirri von að hún átti sig á göllum eigin frumvarps og geti þá gert á því lagfæringar.

Jafnframt er ástæða til að taka undir þær vangaveltur og áhyggjur sem birtust í ræðu hv. þm. Birgis Ármannssonar og andsvörum hv. þm. Péturs H. Blöndals áðan. Menn hljóta að spyrja sig að því hvers vegna hæstv. forsætisráðherra leggi slíkt ofurkapp á að koma þessu máli í gegn akkúrat núna þegar það væri allt eins gott að taka málið fyrir í október eða nóvember, hvers vegna hæstv. forsætisráðherra er tilbúinn til að taka tugi annarra mála, sín eigin mál, í gíslingu til að knýja á um að þetta mál komist í gegn. Ekki er hægt að álykta annað en að hæstv. forsætisráðherra ætli sér sem allra fyrst að beita því mikla valdi sem hæstv. forsætisráðherra vill tryggja sér með frumvarpinu, ætli að beita því mjög fljótlega og væntanlega með afgerandi hætti, miðað við hversu mikil áhersla er lögð á að knýja það strax í gegn.

Þetta eru spurningar sem við hljótum að velta fyrir okkur en eftir umræður kvöldsins hljótum við umfram allt að velta fyrir okkur ræðu hv. þm. Atla Gíslasonar. Með henni féll í rauninni svo að segja allur málflutningur stjórnarliða og þeirra sem að frumvarpinu hafa staðið og hafa haldið því fram að tilgangur þess og tilurð byggðist á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og vinnu þingmannanefndarinnar. En hér kom sjálfur formaður þingmannanefndarinnar og útskýrði að þessu væri í rauninni þveröfugt farið, að með frumvarpinu væri gengið gegn því sem menn ætluðu sér með vinnu rannsóknarnefndarinnar og úrvinnslu þingmannanefndarinnar.

Þetta eru stórar spurningar til að velta fyrir sér og líklega gefst ekki mjög langur tími til að velta þeim fyrir sér því farið er að styttast í að umræður hefjist að nýju. Ég hvet því þingmenn til að nota tímann áður en þeir leggjast til svefns í kvöld og hugleiða þessar spurningar svo að þeir verði tilbúnir til að taka þátt í umræðunni á morgun.