139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[03:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta svar hv. þingmanns rímar mjög illa við þá kröfu sem er mjög hávær í þingsölum um skýr svör í umræðu um málið. Þetta var afskaplega óskýrt svar. (Gripið fram í: Þetta var óskýr spurning.) Hver er afstaða þingflokks Framsóknarflokksins til þeirra lausnamiðuðu tillagna sem lagðar hafa verið fram, m.a. af tveimur þingmönnum Framsóknarflokksins? Er það dónaskapur eða einhver skylmingaþrælamennska að krefja menn svara við þeirri spurningu? Hefur annað eins ekki verið gert af hálfu stjórnarandstöðunnar og þingmanna Framsóknarflokksins í garð ríkisstjórnarinnar? Getum við ekki gert þá kröfu, eins og þingmenn stjórnarandstöðunnar gera til ríkisstjórnarflokkanna, að forustumenn stjórnarandstöðuflokkanna svari spurningum? Aktar Framsóknarflokkurinn á þingi eins og einn flokkur eða eins og sundruð hjörð? Þetta er afskaplega einföld spurning, (Gripið fram í.) mér leikur hugur á að fá að vita svarið við henni. (Gripið fram í.) Ég mundi gjarnan vilja … Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, eru þetta viðkvæmar spurningar sem hér eru bornar fram? (Gripið fram í: Ég heyri bara illa.) Þú situr nógu nálægt til að geta heyrt það sem ég ber hér fram. (Gripið fram í: Þetta er mjög óskýrt.) Ég vona að þú leggir við hlustirnar þegar hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson svarar þessum spurningum. (Gripið fram í.)