139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[03:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Í dag hafa þingmenn stjórnarflokkanna komið fram með orð eins og að stjórnarandstöðuþingmenn séu í raun vitgrannir, eins og einn hv. þingmaður kom fram með í ræðu. Annar sagði að einhver væri geðklofa og síðan var forsetinn kallaður ræfill. (BVG: Það er rangt.) Ég held að forseti þingsins ætti að skoða vandlega hvernig stjórnarflokkarnir haga málflutningi sínum. Ég vil þó segja eitt að ég hef að sjálfsögðu sem þingflokksformaður Framsóknarflokksins ekkert um það að segja hvaða þingmenn koma hér upp og fara í andsvör. Það er ekki valdsvið þingflokksformanns Framsóknarflokksins að banna hv. þm. Birni Val Gíslasyni að fara í andsvar.

Ég geri hins vegar alvarlega athugasemd við fundarstjórn forseta því að að mínu viti var ræðu þingmannsins klárlega lokið þegar beiðni um andsvar kom. Eftir því sem ég best veit eru (Forseti hringir.) þingsköp þannig að andsvarsbeiðni skuli koma fram áður en ræðu er lokið. Það hefur ekkert með það að gera að hv. þingmaður megi tala eða tala ekki. (Forseti hringir.) En forseti brást að mínu viti hlutverki sínu og það þarf að fá á hreint.