139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[03:43]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Svo það komi fram spurði ég hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson, þingflokksformann Framsóknarflokksins, áður en ég fór í andsvar hvort hann gerði athugasemd við að ég færi í andsvar. Hann kvað já við, hann gerði athugasemd við það, svo því sé haldið til haga. Ég ætla að vona að hv. þingmaður gangist því. Það finnst mér mjög aumt, virðulegi forseti, ef hv. þingmaður kemur síðan í ræðustól og vill fá að rannsaka hljóðupptökur af fundinum til að athuga hvort beðið hafi verið um andsvar sekúndunni áður en formaður flokksins náði að hlaupa úr ræðustólnum, til að reyna að forðast andsvör skiljanlega, eða ekki. Og ég spyr: Á að setja í þetta sérstaka nefnd? Hvernig fer slík rannsókn fram?

Virðulegi forseti. Ég held að það sé langt síðan þingmenn hafi lagst jafn lágt í þingsal í ræðum sínum og málflutningi og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson gerði fyrir hönd þess hluta Framsóknarflokksins sem er í kringum hann í það minnsta, virðulegi forseti.