139. löggjafarþing — 163. fundur,  15. sept. 2011.

Stjórnarráð Íslands.

674. mál
[03:44]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég hef gert ítrekað athugasemdir við fundarstjórn forseta í kvöld og bent á að ekki sé gáfulegt að taka þátt í umræðu á þessum tíma án þess að hafa hugmynd um til hvers hún sé, hvenær hún muni enda og annað.

Hér hafa menn látið þvílík orð sér um munn fara í dag að reginhneyksli er. (ÁI: Það er rétt.) Og þegar einn hv. þingmaður kemur hingað upp og talar um lágkúru, þá veit ég svo sem ekki annað en að skynsamlegast væri að vísa því beint til föðurhúsanna. (BVG: Heyrirðu það, Gunnar?) Hérna á ég við hv. þm. Björn Val Gíslason, svo ekki sé vafi á því, og eins hv. þm. Mörð Árnason líka.

Varðandi hljóðupptökur veit ég ekki betur en að meiri hluti allsherjarnefndar leggi það til að hljóðupptökur séu af ríkisstjórnarfundum. Þær á reyndar ekki að birta fyrr en eftir 30 ár, en þær eru til að upplýsa (Forseti hringir.) hvað gerist. En hér er lagt til að hljóðupptaka verði nýtt til að lýsa upp mál einn, tveir og þrír til að skýra hvort farið sé að þingsköpum eður ei. Herra forseti, (Forseti hringir.) ég held að skynsamlegast sé að slíta þessum fundi.